Þjóðminjasafn Íslands

Tungufellskirkja er í eigu Þjóðminjasafns Íslands síðan árið 1987.

Kirkjukort.is

Hægt er að lesa um kirkjuna á vefsíðunni kirkjukort.is.

Kirkjuklukkur.is

Hægt er að heyra kirkjuklukkurnar í Tungufellskirkju hringja á vefsíðunni kirkjuklukkur.is.

Kirkjan

Kirkja hefur staðið í Tungufelli frá ómunatíð en fyrst er vitað um kirkju þar skömmu eftir árið 1200.  Hún var þá helguð Andrési postula.  Hún var útkirkja frá Reykjadalsprestakalli en frá árinu 1819 hefur hún heyrt undir Hruna.  Kirkjan í Tungufelli hefur alla tíð verið bændakirkja eða allt til ársins 1987 að eigendur gáfu hana Þjóðminjasafninu.  Guðsþjónusta er árlega í Tungufellskirkju að hausti.

Kirkja sú sem nú stendur var byggð árið 1856 og var forsmiður hennar Sigfús snikkari Guðmundsson frá Ytri-Tjörnum í Eyjafirði.  Hún er timburkirkja, upprunalega bikuð.  1903 var kirkjan klædd járni að nokkrum hluta og seinna að fullu og öllu.  Gólfflötur kirkunnar er 22 fermetrar og tekur hún um 30 manns í sæti.  Að innan er hún þiljuð með spjaldaþili en hvelfing er yfir.

Í Tungufellskirkju er predikunarstóll og altari ásamt ramma utan um altaristöflu, allt útskorið og málað af Ófeigi Jónssyni frá Heiðarbæ í Þingvallasveit. Þessir gripir voru upphaflega smíðaðir inn í eldri torfkirkju sem stóð í Tungufelli og var byggð af Ófeigi sjálfum árið 1831 en viður kirkjunnar hafði verið mjög lélegur þó hann hafi verið sagður nýr kjörviður.  Árið 1948 var verulega farið að sjá á kirkjunni og annað hvort varð að gera á henni gagngerar viðgerðir eða byggja nýja.

(Heimild: Kirkjur Íslands; Reykjavík 2001; Hið íslenska bókmenntafélag)

Kirkjumunir

Tungufellskirkja á marga fallega muni en þeirra helstu eru Tungufellskrossinn og kirkjuklukkurnar.  Einnig má nefna altarið og pretikunarstólinn sem er í kirkjunni.

Tungufellskrossinn

Tungufellskrossinn var í kirkjunni í stað altaristöflu allt til ársins 1915 er Þjóðminjasafnið eignaðist hann.  Krossinn er smelltur kross frá borginni Limoges í Frakklandi og er talinn smíðaður snemma á 13. öld.  

Gamla altaristaflan

Aðeins málmplöturnar voru þá eftir í Tungufellskirkju og höfðu verið festar á töflu yfir altarinu (sjá mynd til hægri), en trékrossinn sjálfur hafði ekki varðveist.  Talið er að krossinn hafi upphaflega verið í Skálholtsdómkirkju.

Í stað krossins kom núverandi altaristafla, máluð af Brynjólfi Þórðarsyni, en Matthías Þórðarson þjóðminjavörður hafði milligöngu um að sú altaristafla væri keypt til kirkjunnar.

Tungufellskirkja_klukkur

Kirkjuklukkurnar

Klukkur tvær fornar úr kopar hanga í ramböldum á kirkjuloftinu.  Þessar klukkur eru meðal elstu kirkjuklukkna á Norðurlöndum en þær eru steyptar fyrir árið 1200.  Þessar klukkur eru með svonefndu býkúpulagi.

Hvar er Tungufell!

Tungufell í Hrunamannahreppi er um 20 km fyrir ofan Flúðir.  Þegar komið er í gegnum Flúðir er beygt inná veg nr 30 og ekið um 16 km.  Þá er beygt inná veg nr 349 Tungufellsveg.

Hafðu samband

Tölvupóstur